• Home
  • Learn to play
  • Ideas & Secrets
  • Podcast/TV
  • Blog
  • Contact

Jon Hilmar Karason

Jon Karason, September 12 2018

Þegar besti vinur minn dó

Það var venjulegur morgun á venjulegum degi. Ég vaknaði eins og venjulega og fékk mér morgunmat. Síminn hringdi óvenju snemma þennan morgun og þegar svoleiðis gerist og börnin eru ekki farin í skólann og þú veist að þau hafa gleymt skólatöskunni þá grunar þig að það sé ekki allt með felldu. Þú gerir ímyndar þér samt að eitthvað annað hafi gerst þegar röddin í símanum segir. „Komdu niður eftir núna, ég vil ekki tala um það í símann“ Mann grunar að einhver hafi dáið en ekki dettur manni samt í hug að besti vinur þinn sé dáin. Það hlítur að vera einhver annar þó mann gruni að eitthvað svoleiðis hafi gerst.

Að ganga inn í kaffistofuna á vinnustaðnum þar sem þinn besti vinur hafði 15 árum áður gefið þér stóra tækifæri í lífinu á þeim tíma, og heyra „hann er dáin“ er skrítin tilfinning. Hún er svona eins og að heyra að Jólasveinninn sé ekki til.

Bestu vinir eru ekki fullkomnir og það er einmitt þess vegna sem þeir eru fullkomnir. Við sjáum veikleika þeirra og forðumst að feta í þau fótspor sem okkur líkar ekki. Við lærum líka af því góða og fetum þau fótspor ótrauð. Þegar besti vinur minn dó þá sá ég líka hvað það var sem ég þyrfti að gera í lífinu. Það er einmitt fórnin sem er stundum forsenda þess að við getum breytt einhverju í lífinu og því miður var þetta á einhvern skrítin hátt forsenda þess að ég fór að róa á móti straumnum í stað þess að hafa árarnar um borð og fljóta bara með.

Þessi vinur minn var mikil fyrirmynd og ég man alveg sérstaklega vel eftir því þegar ég áttaði mig á því að sennilega væri ég ekki alveg á réttri leið. Við vorum baksviðs á tónleikum en við spiluðum mikið saman, eiginlega alltaf þegar við spiluðum spiluðum við saman, en hann var að tala við söngkonu sem ekki löngu síðar dó úr krabbameini langt fyrir aldur fram. Hann sagði henni að það væri mikilvægt fyrir sig að hitta karla á Olís á morgnana því þar fengi hann mótstöðu. Á sínum vinnustað væru nefnilega bara já menn. Hann horfði skömmustulegur á mig eins og hann hefði gleymt því í stutta stund að ég stæði þarna stutt frá. Eftir þetta reyndi ég alltaf að finna aðra nálgun á það sem hann sagði. Ég reyndi að vera ósammála þó ég væri það ekki endilega.

Besti vinur minn var með stór plön þegar hann myndi hætta að vinna. Það var ýmislegt sem hann beið spenntur eftir að sinna þegar eftirlauna aldrinum væri náð. Hann var tónlistarmaður sem átti fullt af tónlist í sér sem hann hafði aldrei sinnt. Eftir hann lágu engin lög. Æfistarfið var þó alls ekki þannig að ekker lægi eftir því hann hafði mikil áhrif á samstarfsfólk sitt og nemendur. Hann hafði áhrif á aðra en hefði svo vel geta haft meiri áhrif á sig sjálfan. En hann ætlaði að bíða með það.

Svo dó hann bara.

Spring has passed. Summer has gone. Winter is here… and the song that I meant to sing remains unsung. For I have spent my days stringing and unstringing my instrument. – Rabindranath Tagore

Stundum breytist bíða í aldrei og það er svo sorglegt. Kannski er ekkert sorglegra. Við deyjum öll svo það að bíða hlýtur að vera sorglegra en sjálfur dauðinn.

Ekki bíða, gerðu og byrjaðu núna!

Written by

Jon Karason

Previous Segðu já
Next Að taka sénsinn á atvinnuleysi