• Home
  • Learn to play
  • Ideas & Secrets
  • Podcast/TV
  • Blog
  • Contact

Jon Hilmar Karason

Jon Karason, May 8 2018

Reglurnar úr Facebook live gítartímunum

Á hverjum mánudegi er gítartími á Facebook.  Í þessum tímum hef ég sett fram nokkrar reglur sem ég reyni að fylgja á hverjum degi. Það er nefnilega ýmislegt sem skiptir meira máli en gítarleikur og þessar reglur koma flestar á undan gítarleiknum. Hér í þessum pósti ætla ég að birta allar reglurnar sem ég hef farið yfir ásamt nokkrum pælingum varðandi hverja og eina. Sumar af þessum reglum hef ég kynnst í gegnum þær bækur sem ég bæði hlusta á og les. Það eru til svo ótrúlega margar frábærar bækur. Það er efni í annan póst.

Haltu þér fast því hér koma reglurnar:

1. Berðu þig saman við sjálfan þig eins og þú varst í gær, ekki einhvern annan eins og hann er í dag. 

Það að bera sig saman við aðra er auðvitað nauðsynlegt upp að ákveðnu marki en oftast gerum við það í neikvæðum tilgangi.  Við skiljum ekkert í afhverju við erum ekki jafn góð að spila og þessi 12 ára á youtube eða Bjössi Thor. Eina markmiðið okkar á í raun að verða betri en í gær. En við höfum flest lent í því að skammast í sjálfum okkur vegna þess að einhver annar er betri en við erum. Málið er að það verður alltaf einhver betri en við erum. Sama í hverju það er. Það er einhver betri en þú í að elda. Það er einhver betri en þú í starfinu sem þú sinnir sama hvað það er. Þess vegna er það mjög mikilvægt að miða sjálfan sig við gærdaginn. Og það besta við það er að það er undir okkur komið hvernig morgundagurinn verður. 

Reglan var í upphafi - Ekki vera þig saman við aðra en eftir að ég las 12 rules for life eftir Jordan Peterson þá breyttist reglan aðeins. 

2. Ekki tala ílla um sjálfan þig við sjálfan þig.

Það eitt getur breytt öllu. Okkur myndi ekki detta í huga að tala við annað fólk eins og við tölum við okkur sjálf stundum.  Þetta er staður sem ég hef verið á og sennilega mjög margir tónlistarmenn. Í bók Daniel Kahneman Thinking fast and slow talar hann um tvennskonar hugsun. Blaðrandi og hlustandi hugsun.  Blaðrandi hugsunin eru hugsanirnar sem poppa upp alveg óumbeðið. Ef þú ákveður að hugsa ekki neitt í 30 sec þá heyrir þú í blaðrandi hugsuninni.  Þar leynast líka fordómarnir okkar. Ef þú sérð mynd af mannesku þá mótar blaðrandi hugsunin hugmynd þína um hverskonar mannesku myndin geymir.  Ef við notum hlustandi hugsunina rétt þá getum við gripið inní og skoðað blaðrið og stjórnað því á hvað við hlustum. Þetta er mjög oft ástæða þess að okkur líður ílla! Ekki tala ílla um sjálfan þig við sjálfan þig.

Tékkaðu á Baksviðsþættinum um þunglyndi tónlistarmanna

3. Æfðu þig reglulega.

Við erum það sem við gerum aftur og aftur. Skiptir engu hvort að við séum að tala um gítarleik, samskipti við aðra eða eldamennsku.  Það að æfa sig reglulega er eina leiðin til að breyta einhverju.  Það skiptir nefnilega svo miklu máli að vita hvert maður er að fara og hvað það er sem á að æfa reglulega.  Ef þig langar að kunna fleiri hljóma og getað spilað fullt af lögum þá æfir þú það reglulega.  Hafðu bara grunn atriðin á hreinu því æfingin skapar varanlegt.  Þú ert það sem þú gerir aftur og aftur svo ef þú æfir þig ekki rétt þá mun æfingin aldrei gera þig að meistara.

Tékkaðu á Mastery eftir Robert Greene

4. Ekki tala illa um aðra.

Þessi regla þarf enga útskýringu en mikla æfingu, aftur og aftur.

5. Er skrímsli undir rúminu þínu?

Og þú liggur uppí rúmi og ert svo hrædd að þú þorir ekki að kíkja undir rúm og athuga hvernig skrímslið lítur út? Þú þorir ekki að standa upp og spyrja á fundinum. Þú þorir ekki að mótmæla heimskulegu reglunni í vinnuni þinni. Þú þorir ekki að syngja ef þú heldur að einhver heyri og þú þorir ekki að sýna lagið þitt því þú ert hrædd um að einhver segi að það sé lélegt. Ef það er eitthvað sem þú ættir að gera þá eru það hlutirnir sem hræða þig mest! Kíktu undir rúm frekar en að liggja og óttast skrímslið sem er ekki einusinni þarna. Það er ekkert nema óttinn við það. Ég tengi þetta oft við sönginn því ég var alltaf skíthræddur við að syngja fyrir framan aðra. Nú er mér skítsama hvað öðrum finnst um söngin minn. Ég kíkti undir rúm og það var ekkert skrímsli.

Tékkaðu á Leap first eftir Seth Godin

6. Hlustaðu.

Ef þú getur ekki spilað það sem þú heyrir, heyrðu þá það sem þú spilar

Þegar þú æfir þig vandaðu þig alltaf við að hlusta. Þegar þú ert að spila með einhverjum hlustaðu meira en þú spilar. Þegar þú ert að tala við einhvern, hlustaðu þá meira en þú talar.  Þú getur lært að spila lög bara með því að hlusta ef þú gerir það aftur og aftur og aftur. (Regla 3.)

7. Vertu sá sem er best undirbúin.

Ég er svo heppin að hafa fengið að spila með mörgu af besta tónlistarfólki landsins og frábæru erlendu tónlistarfólki líka. Þeir bestu eru ekkert endilega þeir sem spila hraðast eða kunna mest. Þeir eru einfaldlega best undirbúnir. Þeir vita hvaða hljómur kemur næst og hvernig lagið er uppbyggt. Svo með tímanum ef þú ert alltaf best undirbúin þá verður þú að lokum best í heimi. Hvað þýðir að vera bestur í heimi? Að vera bestur í heimi þýðir að þú ert sá sem er leytað til í þínum bæ eða á þínu svæði. Sá sem ert best undirbúin í hljómsveitinni. Bestur í þínum heimi.

Aftur og enn tékkaðu á Seth Godin

8. Ekki taka neitt persónulega.

Þessi regla er svo mikilvæg og svo erfið. Það er erfitt að hlusta ekki ef einhver fílar ekki það sem við gerum eða finnst við vera alveg æðisleg. En til að taka engu persónulega þá á það jafnt við um lof og last. Það er dásamlegur staður að vera á þegar maður nær að taka engu persónulega. Því hinn staðurinn er staður þar sem þú ert að reyna að þóknast öllum. Staður þar sem álit annara skiptir öllu máli. Fórnarlömbin eiga heima þar og þeir sem þurfa stöðugt að fá klapp á bakið. 

Tékkaðu á Lífsreglurnar fjórar eftir Don Miguel Ruiz

9. Það skiptir meira máli að gera en að geta

Það skiptir öllu máli að byrja áður en þú ert tilbúin. Byrja strax og plana svo. Hversu oft ætli ég hafi hætt við eitthvað því ég var alltaf að undirbúa.  Þegar mér hefur tekist að gera eitthvað spennandi þá hef ég byrjað lögnu áður en ég var tilbúin. Til dæmis fékk ég hugmyndina að Baksviðs sjónvarpsþáttunum mínum á leiðinni í vinnuna. Þegar ég kom þangað 2 min síðar hringdi ég í sjónvarspstöðina og byrjaði. Ég vissi ekkert um sjónvarpstþáttargerð hvorki gerði ég mér grein fyir hversu mikil vinna væri að gera sjónvarpsþátt frá grunni og sjá um allt ásamt félaga mínum Guðjóni Birgi eða hvernig ætti að gera sjónvarpsþætti yfir höfuð.  Tvær seríur búnar, klikkuð vinna en alveg geggjað þrátt fyrir það.  Þú þarft ekkert að kunna þegar þú byrjar en þú verður að hafa vilja til að læra og gera og svo gera meira.  Margir hafa allskyns menntun en gera aldrei neitt. Gerðu áður en þú getur! Stay stupid og ekki tapa þér í undirbúningi.

Tékkaðu á Linchpin eftir Seth Godin og War of Art eftir Steven Pressfield

10. Ekki vera fáviti - Eistnaflugsreglan

Ég á ekki við fáviti sem heimskur endilega. Það óendanlega margt sem við vitum ekki og þess vegna erum við heimsk á svo mörgum sviðum ef heimskur þýðir að vita ekki eitthvað. Svo við tökum því bara eins og það er. Við erum heimsk og það er gott. Ég veit ekkert verra en einhvern sem veit svarið. Það er skrítið að vita hvenær sólin brennur upp þó svo að þú sért með háskólagráðu í því fagi.  Við vitum ekkert um það en við getum auðvitað reynt að geta okkur til um það. Það er annað mál. Svo virðist það vera þannig að allar staðreyndir eru umdeilanlegar. Okkar staðreyndir eru byggðar á okkar raunveruleika og því sem við kjósum að trúa. Það er til fólk sem trúir því að jörðin sé flöt. Það er til fólk sem trúir á álfa. Það er til fólk sem trúir því að trú sé ekki til og það er til fólk sem trúir því að tæknin sé slæm.

Ég á frekar við að við eigum að reyna eftir fremsta megni að haga okkur ekki eins og fávitar en það er ekki auðvelt. Stundum þurfum við að taka ákvarðannir sem þjóna ekki öllum svo ég er ekki segja að við eigum að þóknast öllum. Við getum hinsvegar vandað okkur við að koma vel fram við aðra og það skiptir svo ótrúlega miklu máli fyrir tónlistarmenn. Það nennir engin að spila með fávita svo það að vera ekki fáviti er mjög mikilvægt fyrir okkur gítarleikarana.  Hjálpa frekar en drulla og bera virðingu fyrir öllum og reyna að skilja frekar en að dæma.  Það er að vera ekki fáviti til dæmis.

www.eistnaflug.is

11. Segðu já

Heimurinn er fullur af tækifærum en okkur finnst sennilega að við séum ekki tilbúin fyrir þau þegar þau koma.  Þannig á það líka að vera. Passaðu þig bara á að segja já þegar tækifærið gefst! Það er ekkert víst að það komi aftur og þú græðir meira á því að grípa það og klúðra því en að segja nei. Líkurnar á því að þú klúðrir því eru líka örugglega minni en þú heldur. Við þurfum að læra að sjá hlutina eins og þeir eru og trúa því sem hjálpar okkur frekar en að trúa því sem er satt.  Sannleikurinn er nefnilega svolítið vandasamur.  Flestir trúa því að þeir geti minna en þeir geta og það er ekki hjálplegur sannleikur. Við eigum það til að túlka sannleikann okkur í óhag og ekki sjá hlutina eins og þeir eru. Veistu svo er lífið svo skrítið. Við vitum því miður ekki hvernig morgundagurinn verður. Stundum erum við minnt á það með mjög grimmum hætti svo ekki láta tækifærin renna þér úr greipum. Lífið er bara of stutt. Við áttum okkur ekki á því fyrr en við erum minnt á það eins og ég var minntur á það síðast í gærkvöldi. Gerum meira og höfum það alvöru.

Seth Godin - What to do when its your turn and its always your turn.

12. Ekki taka sjálfan þig svona alvarlega

Það að gefa út lag er skrítið ferli. Ég vona að það sé undarlegast við fyrsta lag því maður hlustar eftir fyrsta mix og finnst lagið bara ágætt. Svo hlustar maður aftur og fer að spá í hvort nokkur nenni að hlusta á þetta, lagið sé nú ekkert spes. Næsta dag er maður bara nokkuð ánægður með sig en svo fer maður að spá í hvor þeim sem segja lagið gott séu nokkuð að meina það. Svona er ferlið við að semja lag einnig ef maður hefur of mikin tíma.

Egóið er svolítið að pönkast í manni. Það gerir það oft og við viljum líta vel út gagnvart öðrum og standa undir væntingum annara. Hvert ætli lagið fari? Á maður að ýta því áfram eða lofa því að lifa eigin lífi. Ef það er nógu gott hlýtur það að enda einhversstaðar. En málið er að ekkert af þessu á að skipta máli fyrir okkur. Þegar þú ert búin að senda það út getur þú ekkert gert. Það eina sem við getum gert er að segja „hérna ég bjó þetta til“ ef þér líkar við það þá er það frábært, ef þér líkar ekki við það þá er það líka frábært. Lagið er ekki fyrir alla, bara þá sem líkar við það. Við eigum ekki að taka því persónulega þó einhverjum líki ekki við lagið. Við eigum ekki að taka því alvarlega. Við eigum ekki að taka okkur svona alvarlega. 

Tékkaðu á Art of possibillity eftir Ben og Rosa Zander

JHK

Written by

Jon Karason

Tags

Next Ekki horfa til baka og hugsa "Ég hefði átt að....."