Jon Hilmar Karason
Þá á ég við eitthvað sem þú þurftir að hafa fyrir eða hafðir góða ástæðu til að framkvæma ekki. Góðar ástæður eru skrítið fyrirbæri.
Við finnum þær upp til að fresta hlutunum og ég er alltaf að finna mér góðar ástæður til að gera ekki það sem ég ætti að gera. Góðar ástæður og afsakannir eru eins og skoðannir okkar, við hömumst við að finna rök til að réttlæta þær og láta þær meika sens fyrir okkur. Hjá mér eru þessar ástæður partur af frestunnaráráttu minni og þar með ætla ég að gera ráð fyrir að þannig sé það líka hjá þér. Við erum nefnilega svo lík.
"If you are like most people, then like most people, you don't know you're like most people." Daniel Gilbert, Stumbling on Happiness
Sennilega er besta ástæðan þessi nístandi hræðsla sem fer um okkur þegar við ætlum að gera eitthvað í fyrsta skipti. Hræðslan skapar allar hinar ástæðurnar, tímaleysi, peningaleysi, gæjuleysi, kunnáttuleysi, skipulagsleysi, leysi, leysi, leysi og lazy. Hræðslan er það sem þú verður að berjast við á hverjum degi og þú sigrar aldrei. Á fyrirlestrunum mínum tala ég um hræðsluna sem skrímsli. Ég fæ þessa hugmynd lánaða frá Steven Pressfield, The war of art. Skrímslið(The Resistance) kemur alltaf aftur og finnur endalausar leiðir til að stoppa þig og tekur á sig ýmsar myndir. Nákvæmlega þess vegna er svo mikilvægt að gera eitthvað í fyrsta skipti reglulega. Eitthvað sem hræðir þig. Ég er einmitt með þannig verkefni í gangi. Ég hef frestað því í nokkrar vikur og hef fundið upp margar ástæður til að byrja ekki. Til dæmis með að skrifa þetta blogg.
Oftast þegar við gerum eitthvað í fyrsta skipti þá líður okkur eins og froskum. Við hræðumst ekkert meira en hvað öðrum finnst um okkur. Ég hef upplifað það að standa uppá sviði og spila fyrir fullt af fólki og nokkrir gestir fór að hlægja. Þá leið mér eins og froski. Ég var ekki að gera neitt fyndið. "Sjæs, er ég með opna buxnaklauf? Sagði ég eitthvað vitlaust? Eru allir að hlægja að mér?" Svo breytist það fljótlega í "þetta var þá svona slæmt hjá mér. Ég hefði átt að sleppa þessu. Þú ert alveg glataður!"
"Ekki trúa því sem er satt, trúðu því sem er hjálplegt." Mark Manson
Það hjálpaði mér ekki mikið að trúa því sem ég var að hugsa, trúa því sem ég gerði ráð fyrir að væri satt. Ég hefði ferkar átt að trúa því sem var hjálplegt, að þau væru að spjalla saman og hlægja þess vegna. Hláturinn snéri sennilega ekkert að mér. Kannski langaði þau ekki að hlusta en það er líka allt í lagi. Og þó þau væru að hlægja að mér, hvaða máli hefði það svo sem skipt? Þegar við gerum eitthvað sem í alvöru skiptir máli eins og að gera það sem við erum hrædd við þá verðum við að samþykkja leikreglurnar. Og þær eru að þetta gæti misheppnast og sennilega verður þú skjálfandi hrædd allt ferlið. Þú verður bara að halda áfram að spila og trúa því sem er hjálplegt ekki því sem er satt.
En eina leiðin til þess að verða góður í einhverju er að gera, gera, gera og gera. Þú bara verður að sökka svolítið áður en þú verður betri en þú verður að halda áfram að spila leikinn. Annars geturðu ekki bætt þig. Þetta á sérstaklega við um þegar við erum að gera eitthvað skapandi eins og að mála, gera youtube myndbönd, gera podcast, tala opinberlega, semja tónlist, texta eða spila á hljóðfæri. Hér er mjög góð pæling um það að vera byrjandi.
"Þú ættir að semja texta við lagið þitt"
"Nei ég er alveg ömurleg í að semja texta"
"Nú? Hvað hefur þú samið marga texta?"
"Ég hef aldrei samið neinn texta"
Ein leið sem ég nota til að sigrast á skrímslinu er að auglýsa viðburðinn áður en ég er tilbúin. Á mánudag kl 20 verður live gítartími á Facebook. Þegar ég veit það þá byrja ég að undirbúa mig á fullu og það er erfiðara að fela sig og afsökununum fækkar. Ef ég ákveð að einhvertíma í framtíðinni ætli ég að hafa live gítartíma á Facebook þá gerist ekki neitt. Ástæðurnar fyrir að byrja ekki hrannast upp. Þess vegna auglýsi ég oft verkefnin mín áður en ég hef hugmynd um hvernig ég ætla að framkvæma þau eða jafnvel án þess að ég viti að ég geti framkvæmt þau. Þannig var það t.d þegar ég sendi út minn fyrsta live gítartíma á youtube. Þannig var það þegar ég ákvað að senda út 12 gítartíma út á Facebook og þannig var það þegar ég fór með ÞORA VERA GERA fyrirlesturinn minn í næstum alla grunn og tónlistarskóla á Austurlandi (einn skólinn hafði ekki tíma). Að sjálfsögðu þarf ég að byggja verkefnin mín á því sem ég kann, það þýðir ekkert fyrir mig að auglýsa golfnámskeið og halda að ég geti gert það með stæl því ég kann ekki golf. En sum verkefni eru þó þannig að þú getur í raun ekki metið hvort þú getir gert þau án þess að prófa. Þannig var það þegar við Guðjón Birgir bjuggum til sjónvarpsþættina Baksviðs. Við höfðum ekki gert neitt þessu líkt en ákváðum að gera þá samt. Öll þessi verkefni voru auglýst fyrst og ákveðin dagsettning sett niður áður en ég hafði hugmynd um hvort ég gæti þetta eða ekki. Ástæðurnar til að hætta við öll þessi verkefni voru margar. En þegar tímasettning er ákveðin þá er ekki hægt að snúa við.
Einmitt þess vegna ætla ég að segja þér frá verkefninu sem ég hef verið að fresta. Þriðjudaginn 19. febrúar ætla ég að senda út mitt fyrsta podcast. Það heitir Baksviðs og fjallar um gítarinn og annað sem mig langar að tala um eins og það sem er í þessu bloggi. Það sem ég veit áður en ég held af stað er að mjög líklega munu fáir hlusta, ég verð ekki tilbúin og fyrstu skiptin munu verða erfið. Ég verð með óþægilega tilfinningu í maganum þegar ég ýti á send því allir geta hlustað það sem ég ætla að segja. Ég ætla samt að gera þetta. Ég veit að ég mun læra helling og kannski hlustar einhver sem getur nýtt sér eitthvað af því sem ég tala um.
Að gera er mikilvægara en að geta!
p.s ég er enn að hugsa um að sleppa því að ýta á Publish now