• Heim
  • Gítarkennsla
  • Tónlist/Tónleikar
  • 2020 Leiðir
  • Blog

Jon Hilmar Karason

Jón Hilmar Kárason, March 24 2020

Sagan sem þú segir 2030

Það sem mér finnst hafa verið erfitt þessa fyrstu daga af þessum skrítna Covid tíma sem við upplifum nú er að hafa sig í að gera eitthvað. Við frestum öllum sköpuðum hlut vegna tímaleysis og þegar við höfum tíma frestum við vegna þess að við getum gert þetta á eftir og svo á morgun.


“Hugur minn er hjá eiginmönnum þessa lands sem sögðust fara í endurbæturnar um leið og þeir hefðu tíma”  höfundur óþekktur.

Þú getur ákveðið að vera partur af þeim sem kemur vel út úr þessari kreppu sem við erum að sigla inní. Það verður ekki auðvelt, það verður ekki alltaf skemmtilegt en þú getur gert það. Ég ætla svo sannarlega að gera mitt besta til að sigra skrímslið í hausnum á mér sem vil að ég setjist niður og slaki á til morguns. Hér er ein leið til að hugsa þetta.

Eftir 10 ár stendur þú í beinni útsendingu frá Hörpu, uppi á sviði í troðfullum sal og áður en þú tekur síðasta lagið þá ákveður þú segja svolítið.

“Árið 2020 þegar heimurinn fór á hliðina, fyrirtæki urðu gjaldþrota í hrönnum, fjöldi fólks missti vinnuna og mikil hræðsla greip um sig um allan heim. Fjöldi fólks lést úr Covid-19 og við erum að mörgu leyti enn að vinna okkur út úr þeim hörmungum sem dundu yfir okkur. En þá lærði ég líka að spila á gítar. Árið 2020 var árið sem ég byrjaði fyrir alvöru að spila. Ég æfði mig nokkra klukkutíma á hverjum degi, bara vegna þessara ömurlegu tíma því ég var alltaf heima og ákvað að nýta tímann minn. Ég hafði ekkert betra að gera. Þess vegna stend ég hér með gítarinn í hönd og ætla að enda á þessu lagi sem er tileinkað öllum þeim sem fóru ílla út úr faraldrinum.”

Nú er tíminn. Þú getur búið til söguna sjálf og byrjað í dag. Þú getur alveg ákveðið að þú spilir uppáhalds lagið þitt fyrir sjálfa þig árið 2030 og hugsir um daginn í dag. Þú þarft ekki endilega að vera í beinni úr Hörpu:) En þú getur byrjað að skrifa söguna um sjálfa þig í dag. Hvað ætlar þú að gera?

Written by

Jón Hilmar Kárason

Previous 5 mikilvæg atriði
Next Látum fáránlegar hugmyndir verða til á fáránlegum tímum.