Jon Hilmar Karason
Ég hef verið að velta síðasta bloggi fyrir mér. Þá var ég að hugsa um að öllum sé í raun sama um hvað þú gerir. Það eru allir að hugsa um sjálfa sig. Auðvitað er þetta svolítið stór fullyrðing en það er ágætt að hafa þessa pælingu á bak við eyrað því það á ekki að skipta máli hvað öðrum finnst um það sem þú gerir. Það eru svo margir sárir yfir því að fá ekki viðurkenningu fyrir verk sín. Málið er að það skuldar okkur engin neitt. Sama hvað við gerum þá eigum við ekkert skilið viðurkenningu frá öðrum. Ef hún kemur þá er það gaman en það má ekki verða tilgangurinn. Tilgangurinn verður að koma frá sjálfum þér og viðurkenningin er sú að þú getur horft til baka og hugsað, fyrst ég gat þetta þá get ég gert meira. Það er nefnilega oft þannig að þegar draumnum er náð þá finnst okkur það ekkert spes. Við héldum að hann væri takmarkið en sennilega er draumurinn bara varða á leiðinni.
Það sama á við um virðingu. Þú færð virðingu bara með að vinna þér hana inn. Virðing er ekki skuld einhvers við þig heldur laun þín fyrir það sem þú gerir.
1. Taktu þátt - Spilaðu leikinn. Að gera skiptir meira máli en að geta og eina leiðin til að bæta sig er að spila leikinn. Það hefur ekki gagnast neinum hingað til að kunna eitthvað en framkvæma ekkert. Ef þú ákveður að spila á hverjum degi er það fyrst skuldbinding sem þróast yfir í æfingu sem verður svo að vana. Það er mikið auðveldara að vera í viðjum vanans en að treysta á sjálfsagann.
2. Taktu áhættu - Gerðu mistök. Ef þú ákveður að spila leikinn ekki hugsa of mikið. Stay stupid. Ekki halda að þú getir hugsað upp leiðir til að láta hlutina virka. Þú verður að prófa því við erum mjög léleg að spá um framtíðina. Og ef þú situr og hugsar um hvort þú ættir að stökkva finnur þú örugglega mikið fleiri ástæður fyrir að gera það ekki. Taktu stökkið og gerðu frekar mistök en að sleppa því að stökkva.
3. Lærðu - Bættu við þig þekkingu. En ekki bíða þangað til að þú ert tilbúin. Auðvitað ættir þú að finna einhvern til að hjálpa þér sem kann það sem þú ætlar að gera en ekki bíða með að stökkva þangað til þú ert tilbúin. Það að framkvæma er besti kennarinn sem þú getur fengið þó þú klúðrir öllu sem þú byrjar á. En til þess að mistökin nýtist þér verður þú að læra af þeim og leiðrétta stefnuna sem þú tókst.
4. Ekki gefast upp er ekki gott ráð. Ef þú ætlar aldrei að gefast upp þá verður þú með allt of mörg járn í eldinum og heldur áfram að hjakkast í einhverju sem virkar ekki. Það er ekkert að því að gefast upp á því sem ekki virkar en þú verður samt að gera það á réttum tíma.
Tékkaðu á The Dip eftir Seth Godin til að læra um hvenær er mál að hætta.