Jon Hilmar Karason
Það er mjög góður eiginleiki ef þú spyrð mig. Ég er að hella uppá kaffi fyrir konuna mína sem gleðst mjög yfir að fá kaffi í rúmið. (þetta er siður sem ég tók upp frá Einari Braga vini mínum). Lead by Example er komið yfir 1000 spilanir og við erum himinlifandi yfir að svo margir hafi hlustað á lagið. Þetta er jú tónlist sem við vorum alls ekki vissir um að nokkur nennti að hlusta á. Ungur nemandi minn var svo glaður í vikunni því hann náði tegju í sólói sem hann var að spila og hafði ekki gengið fyrr en þá. (Crazy little thing called love)
Þetta er klárlega eiginleiki sem við getum þróað með okkur og er ekki sjálfsagður. Það að gleðjast yfir litlu hlutunum þýðir nefnilega að maður er að stefna að einhverju sem skiptir í alvöru máli og hlutirnir eru bara litlir í stóra samhenginu. Það er risastórt að gleða maka sinn en að hella uppá kaffi er ekkert mál. Það að fá 1000 spilannir er ekki neitt miðað við The Vintage Caravan en samt risastór varða á okkar leið.
Ég held að til þess að gleðjast yfir litlu hlutunum þurfum við annaðhvort að vera að að vinna að einhverju sem skiptir í alvöru máli eða að vera að gefa af okkur til annara. Og það eru sko ekkert litlir hlutir. Það er sennilega það eina sem virkilega skiptir máli í lífinu.
Þá vaknar spurningin hvað skiptir í alvöru máli?
Þegar ég hugsa um hvað það er þá þurfum við sennilega að svara því hvert fyrir sig. Það hafa ekki allir sömu sýn á þetta en ég held líka að sú sýn sem fólk hefur sé mjög oft umvafin ótta og því að sættast við orðin hlut. Ég held að mörg okkar beri eld í brjósti sem við kæfum. Sumir með fótboltaglápi og bjór aðrir með fíknisjúkdómum og sumir með verslunaræði. Steven Pressfield gerir meira að segja að því skóna í bókinni The War of Art að Hitler hafi startað heimstyrjöldinni síðari vegna þess að hann gat ekki orðið málari eins og hann langaði til. Þegar við kæfum eldinn í brjósti okkar brýst oft eitthvað annað út sem er ekki gott.
Ef ég svara þessu fyrir mig þá vil ég geta sagt þegar á leiðarenda var komið að ég hafi valið leiðina sjálfur og ekki verið hræddur við að prófa. Ég elska þegar verkefni sem mig langar að sjá verða að veruleika heltekur mig og ég hugsa ekki um annað. Að sama skapi verð ég þungur, leiður og fer að drepa tímann frekar en að nota hann þegar ég bý mér ekki til verkefni.
Hvað hefur þig alltaf langað til að gera? Ertu með eld í brjóstinu sem kviknar alltaf aftur eftir að þú hefur slökkt hann? Kannski er tími til komin að næra hann frekar en að slökkva. Hver er þín ástríða?