Jon Hilmar Karason
Þegar við byrjum að spila á gítar eru væntingar okkar til þess hvernig gítarinn ætti að hljóma og hvernig gítarinn hljómar í raun kannski ólíkar. Kannski er þetta ástæða þess að sumir gefast upp á gítarnum of snemma og gefa sér ekki leyfi til þess að hljóma eins og byrjendur. Það að gefa sér leyfi til að hljóma eins og byrjandi er nauðsynlegt til þess að komast yfir erfiðu hjallana í gítarleiknum.
Meira að segja þegar við höfum spilað í 20 ár á gítarinn. Fyrir mig að fara í tíma til gítarkennara eftir öll þau ár sem ég hef kennt og spilað krefst þess af mér að ég sleppi tökunum og gefi mér leyfi til að læra og vera byrjandi. Og það er erfitt, mjög erfitt. Ef við skiljum ekkert í því hversvegna við hljómum ekki eins og Joe Robinson eftir nokkrar vikur eða nokkur ár af gítarspili þá er mjög stutt eftir af ferli okkar sem gítarleikarar og við erum sennilega að nálgast námið á rangan hátt. Stundum hljóma gítarhljómarnir okkar ekki eins og við heyrum þá fyrir okkur. Þeir eru falskir og brakandi og eina ráðið okkar er að henda frá okkur gítarnum og hætta að æfa okkur.
Þegar ekkert gengur erum við oft fljót að verða pirruð og skömmumst í sjálfum okkur fyrir að geta ekkert lært og vera glötuð og allt það. En kannski er leiðin nákvæmlega sú sama og þegar maður þarf að díla við erfiða nágranna sem saka þig um hluti sem þú áttir engan þátt í. Kannski er leiðin sú sama og þegar einhver í kringum þig er algjör asni. Kannski er leiðin nákvæmlega sú sama og þegar einhver gerir mistök og lítur út eins og algjör auli. Kannski er leiðin sú að sýna hljómunum sínum svolítitla samúð.
Hvernig get ég hjálpað þér að hljóma betur? Segðu mér frá vandamálinu þínu og ég skal reyna að hjálpa þér. Um leið og við horfum á hljómana okkar eins og einstakling sem við viljum hjálpa þá kannski verður auðveldara að æfa sig.
Við erum aðeins það sem við gerum, ekki það sem við kunnum, lærum eða segjum en það sem við gerum er samt ekki við. Ég er tónlistarmaður af því að ég gef út tónlist en tónlistin er samt ekki ég. Kannski hljómar hún ekki vel en þá er besta ráðið að sýna henni smá samúð. Hvernig get ég hjálpað þér að verða betri? Höldum áfram og gerum betur í næsta skipti og svo koll af kolli.