• Home
  • Learn to play
  • Ideas & Secrets
  • Podcast/TV
  • Blog
  • Contact

Jon Hilmar Karason

Jón Hilmar Kárason, May 28 2021

Handbremsur og hugmyndir.

Ég á nokkuð nýlegan bíl og alltaf þegar sonur minn fer eitthvað á honum og leggur svo í stæðið heima ýtir hann á handbremsutakkann. Það er alveg óþolandi. Þegar ég ætla að fara af stað daginn eftir kemst ég ekkert þangað til að ég fatta að bíllinn er í handbremsu og það gerist aldrei alveg strax. Ég skil aldrei neitt í því að bíllinn hreyfist ekki.  Bíll sem er á jafnsléttu þarf ekki að vera í handbremsu. Sá sem á ekki að fara neitt notar handbremsuna.

Þegar ég samdi Blue Sin (smelltu til að hlusta) sem er lag af plötunni Ideas & Secrets sem kemur út á streymisveitum föstudaginn 11.júní og á vínyl og CD síðar í sumar, þá tók ég meðvitaða ákvörðun um að setja handbremsuna ekki á. Ég gerði það til að komast áfram. Oft þegar við setjumst niður til að semja þá byrjum við á að setja handbremsuna á og komumst ekki neitt. Þessi hugmynd er of lík þessu lagi. Þetta eru hljómar sem ég hef heyrt áður. Þetta er allt of einfalt. Það er búið að semja öll lög. Þetta er glatað og þetta er ömurlegt. Svo heyrum við nýjasta smellinn í útvarpinu og það fyrsta sem okkur dettur í hug er "ég hefði nú getað gert þetta".

Það er enn verið að semja blús lög og þau eru öll eins. Afhverju get ég ekki alveg eins samið blús lag eins og allir aðrir?  Ég ákvað að setjast niður og semja blús. Einfaldan blús án þess að dæma hann úr leik um leið. Ég setti nokkur instrumental blús lög á fóninn með Larry Carlton og Robben Ford ásamt fleirum til að fá áhrif. Hverju get ég stolið frá þeim? Þetta snýst nefnilega allt um að stela frá öðrum. (Tékkaðu á Steal like an artist eftir Austin Kleon). Undir áhrifum samdi ég þetta litla blús stef. Það er um að gera að drekka í sig tónlist frá öðrum og fá áhrif. Ef þú drekkur í þig ólíka tónlist færðu kannski ný og öðruvísi áhrif og útkomu en það þarf ekkert. Það má alveg semja blúslagið aftur.

Alltaf þegar ég sest niður til að semja þarf ég að taka handbremsuna af. Ég þarf oftast að gera það 100 sinnum á dag. Núna er ég að vinna í öllum hugmyndunum sem eru í símanum mínum því mig langar að gefa út meiri tónlist. Í dag skiptir það mestu máli fyrir mig sem tónlistarmann auk þess auðvitað að kenna öllum nemendum mínum að spila. Mér finnst það að vera tónverkamaður mjög skemmtilegt en mig langar að einbeita mér meira að listinni.

Ég er að vinna í að dæma ekki hugmyndirnar mínar á meðan þær þróast. Lofa þeim að verða að lagi og sleppa því svo og lofa öðrum að dæma um hvort lagið sé gott eða ekki. Ég er búin að vera að hlusta á ýmsa listamenn til að fá áhrif og ég hef komist að því að lang flestir listamenn eiga fullt af ekkert spes lögum. Spotify benti mér á listamenn sem væru líkir John Mayer og ég tékkaði á Jason Mraz og James Morrison til dæmis. Eins góð lög og þeir eiga þá er fullt af ekkert spes stöffi. Svo fyrst þeir semja og gefa út ekkert spes lög þá verðum við að leyfa okkur að semja ekkert spes lög líka. Þeir nota bara G-C-D svo afhverju gerum við það ekki líka ef svo ber undir. Ég hef líka verið að hlusta á nýju Justin Bieber plötuna til að hlusta eftir hvernig er verið að hugsa hlutina í dag. Já ég er að stela frá Justin Bieber. Ég meina hann stal frá TOTO. Réttara sagt þeir sem semja fyrir hann. Ekkert smá heldur helling.  Berðu þessi tvö saman - Anyone með Justin og Goin´Home með TOTO.

Ég er að hugsa um að lofa þér að fylgjast með þegar ég fer í gegnum hugmyndirnar mínar úr símanum. Ef ég ákveð að gera það þá geri ég það á Instagram eða á Podcastinu mínu svo followaðu mig þar. Ég á eftir að útfæra þetta en ég held að þetta gæti verið mjög fóðlegt og hjálplegt. Kannski hvetjandi en líka mögulega upphafið að endinum.  Það er spurning hvað ég geri með handbremsuna í þessu tilviki. Hún hefur nefnilega sinn tilgang og ég verð að nota hana rétt.


Written by

Jón Hilmar Kárason

Previous Láttu skína í skallann!
Next Ég hef ákveðið að....