• Home
  • Learn to play
  • Ideas & Secrets
  • Podcast/TV
  • Blog
  • Contact

Jon Hilmar Karason

Jón Hilmar Kárason, January 15 2020

Hvað er það hræðilegasta sem getur gerst?

Þú stendur frami fyrir ömurlegri stöðu. Það er allt á hvolfi. Bankareikningurinn í mínus og þú þorir ekki að opna póstkassann því þú veist hvað er þar. Ef ég bíð aðeins, hugsar þú, þá get ég sagt þegar verður hringt að ég hafi ekki fengið neinn póst. Þú sefur ílla og dagarnir eru lítið skárri. Reyndar nema þegar þú spjallar við vini og gleymir þér aðeins þá verður allt í lagi í smá stund. Sem sagt þegar þú hugsar um eitthvað annað en vandamálin þá er allt í góðu. Það er nefnilega þetta vesen með hugsanirnar...

Allir hafa upplifað svona hugsanir á einhvern hátt sama hvort það er vegna peninga eða einhvers annars og oft eru milljón ástæður fyrir ömurlegheitunum.  En er ekki skrítið að allt lagist, þó það sé bara í smá stund ef við hættum að hugsa um það? Ætli svarið við því að hætta að láta sér líða ílla sé að geta stjórnað hugsunum sínum? Hvaðan í ósköpunum fengjum við þá hugmyndirnar okkar? Hugsanir okkar skapa bæði vellíðan yfir öllu því frábæra sem við gerum og hugsum og því ömurlega. Það eru þær sem láta okkur líða ílla yfir vandamálum og lama vilja okkar til að gera eitthvað í þeim. Það er svo auðvelt að láta hugsannir hringla í hausnum á okkur stjórnlaust og láta okkur halda að við getum bara ekkert gert. 

“Það er ekkert auðveldara en að hugsa, svo þá er ekkert erfiðara en að gera það vel” Thomas Traherne.

Ef ég hugsa um mínar ömurlegu stundir sem koma svo sannarlega reglulega á reyni ég alltaf að muna þetta: 

1. Það verður aldrei eins hræðilegt og ég ímynda mér. 

Þegar allt er á fullu í hausnum á okkur og ekkert gengur upp þá sjáum við alltaf það versta sem getur mögulega gerst en lang sjaldnast eru hlutirnir jafn slæmir og hugsannir okkar segja. Helmingurinn er í hausnum á okkur.  Málið er að sjá hlutina eins og þeir eru. Ekki eins og við ímyndum okkur að þeir gætu orðið. 

2. Þú velur hvað þú gerir eða gerir ekki.

Við veljum á hverjum degi og þú stjórnar því hvað þú velur og ekkert er mikilvægara en að velja. Þú gerir það í dag og svo aftur á morgun. Þú þarft að velja einhverja leið og fyrst vandamálið er sennilega ekki eins slæmt og þú heldur þá verður valið það ekki heldur. Jafnvel að þú veljir að bíða með að ná í póstinn þangað til á morgun. En þér byrjar fyrst að líða betur þegar þú tæklar vandamálið með því að gera. 

3. Sættu þig við hlutina sem þú stjórnar ekki og getur ekki breytt.

Það er erfitt að hætta að svekkja sig á því sem maður stjórnar ekki en það er mjög góð æfing en erfið. Byrjaðu á veðrinu og svo getur þú farið yfir í leiðindagaurinn í næsta húsi.

Það er kannski ágætt þegar vandamálin verða ömurleg að hugsa hvað er það versta og hræðilegasta sem gæti gerst ef þú sérð vandamálið eins og það er, gerir eitthvað í því og svekkir þig ekki á því sem þú hefur enga stjórn yfir. Svo eftir nokkur ár verður það að minningu alveg eins og ferðin til Tenerife um árið. Alveg eins bara hugsanlega aðeins betri minning.

Written by

Jón Hilmar Kárason

Previous Ég ætlaði alltaf að .....
Next Hvernig sérðu heiminn