Jon Hilmar Karason
Stundum líður manni eins og ekkert gangi. Það er eins og allar æfingarnar skili bara ekki neinu eða verkefnið sem þú ert að vinna að sé stopp. Hjá mér leiðir það oft til þess að ég fer að drepa tímann. Í stað þess að skrifa á ipadinn eða að klippa video fer ég í tölvuleik. Og svo verður það til þess að verkefnin eru komin í stóran stafla í hausnum á manni og á gera listanum og þá vil maður spila meiri tölvuleik.
Um daginn þegar ég var í svona holu þá leytaði ég aftur í unglingsárin. Það er magnað hvað unglingsárin eru ótrúlega mótandi og tónlistin sem manni fannst best þá er enn mjög nærri hjarta manns. Svo til þess að æfa mig meira og ná mér í gang setti ég plötuna After Hours með Gary Moore á. Frábær blús plata og einstakur gítarleikari. Hann hafði svo mikin kraft í spilamennsku sinni sem fáir hafa. Og það er svolítið magnað að svo fáir tileinki sér svona kraft í spilamennsku sinni.
Svo þegar ekkert gengur prufaðu að kíkja aftur á upphafið. Þessvegna getur verið gott að eiga myndband af sjálfum sér spila í byrjun og sjá allar framfarirnar sem koma ef þú æfir þig reglulega. Þær sjást nefnilega ekki alltaf auðveldlega ef maður hefur ekki samanburð. Hlustaðu á tónlistina frá unglingsárunum. Stundum þarftu líka bara smá hvattningu. Það er ein góð ástæða til þess að hafa kennara. Ég fékk mér einmitt einn slíkan um daginn og þess vegna er ég að blogga meira og vinna betur í því sem skiptir máli fyrir mig. Það kostar mig miklu meira að hanga og gera ekkert en að fá mér kennara. Því árin verða að mánuðum og vikurnar að mínútum og áður en þú veist af hafa liðið 10 ár og þú enn á sama stað. Það er engin leið að verðleggja það en sennilega er ekkert dýrara í öllum heiminum en tími sem hefur farið til spillis.