• Home
  • Learn to play
  • Ideas & Secrets
  • Podcast/TV
  • Blog
  • Contact

Jon Hilmar Karason

Jon Karason, May 14 2018

Ekki horfa til baka og hugsa "Ég hefði átt að....."

Memento mori

Það er ekkert sorglegra í öllum heiminum en eftirsjá. Það kemur að því að við horfum til baka og eins undarlega og það hljómar þá sjáum við ekki eftir því sem við gerðum, bara því sem við gerðum ekki. Þó þú stofnir fyrirtæki sem þú vinnur í myrkrana á milli til margra ára bara til þess að sjá það fara á hausinn muntu ekki sjá eftir því þegar á hólminn verður komið. Trúðu mér ég hef prófað það og hef sjaldan lært meira og sé ekki eftir því að hafa reynt.

Málið er að mig dreymdi draum í nótt sem fékk mig til að hugsa um þetta. Draumurinn var þannig að ég var í bíl sem keyrði útaf og ég hafði nokkur andartök til að átta mig á hvað var að gerast.  Ég var alveg rólegur og hugsaði bara jæja þá er komið að því. Svo var ég komin heim til mín. Það voru allir sofandi heima og ég reyndi að nota tímann áður en konan mín og börnin vöknuðu til þess að segja þeim allt sem mig langaði að segja þeim þegar ég var á lífi. Ég bara gat það ekki. Ég fann fyrir allri eftirsjá í heiminum. Það er meira að segja erfitt að rifja drauminn upp.

Allt of oft erum við að uppfylla óskir annara. Það er krafa frá foreldrum og samfélaginu um hvað við ættum að gera við lífið.  Við eigum að mennta okkur og öðlast öryggi þó það sé eitthvað allt annað en okkur langar sjálf að gera. Ég held að það mikilvægasta sem við getum kennt börnum okkar og þess vegna nemendum er að vita hvert við viljum fara og hvað við viljum gera.  Það þarf ekkert endilega að vera nám í háskóla, sérstaklega í þeim heimi sem við lifum í. Möguleikarnir eru svo margir. Auðvitað er það ekki slæmt að fara í háskóla eða að mennta sig með hefðbundnum hætti en það mikilvægasta af öllu er að vita hvað okkur langar að gera og hvað það er sem við erum tilbúin að nota allan tímann okkar í. 

He who has a why to live can bear almost any how. - Friedrich Nietzsche

Við höldum líka að það komi tími þar sem við erum orðin of gömul til að breyta eða gera eitthvað nýtt. Það er alls ekki þannig. Á meðan við erum lifandi getum við gert allt sem okkur langar. Það gæti tekið 10 ár í framkvæmd en hvað er með það? Það þarf bara að þora og byrja. Það skiptir meira máli að gera en geta. Kunnáttan kemur alltaf í kjölfar þess að gera.

Ég er alltaf að hitta fólk sem langaði svo mikið að læra á hljóðfæri. Sumir byrjuðu að læra en æfðu sig aldrei sjá eftir því. Þú ert ekki of gömul eða gamall og það er alltaf einhver sem er til í að hjálpa þér.

Gerðu það sem skiptir þig máli og ekki bíða. Segðu það sem þig langar að segja og athugaðu hvort það sé í raun og veru skrímsli undir rúminu þínu. Byrjaðu á að gera það sem hræðir þig mest. Við höfum bara ekki tíma til þess að þora ekki. Kirkjugarðar heimsins geyma ekki bara ómissandi fólk heldur fólk sem langaði að gera svo miklu meira.

Byrjaðu núna!


Written by

Jon Karason

Tags

Previous Reglurnar úr Facebook live gítartímunum
Next Ekki vera fáviti